Innlent

Seðlabankafrumvarp hugsanlega að lögum innan tveggja vikna

Stjórnarliðar telja líklegt að frumvarp ríkisstjórnarinnar um Seðlabankann verði afgreitt úr nefnd í næstu viku og geti jafnvel orðið að lögum innan hálfs mánaðar. Allir flokkar á Alþingi standa að þremur aðskildum frumvörpum um breytingar á yfirstjórn bankans, nema Sjálfstæðisflokkurinn sem ekki hefur lagt fram neinar formlegar tillögur í málinu.

Nú liggja þrjú frumvörp fyrir viðskiptanefnd Alþingis um breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands, það eru frumvarp ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins. Forsætisráðherra lagði til að frumvarp stjórnarinnar færi til efnahags- og skattanefndar eins og algengt er um efnahagsfrumvörp hennar embættis. Í þeirri nefnd hafa stjórnarflokkarnir meirihluta, eða fimm af níu fulltrúum, en vegna þrýstings frá framsóknarmönnum vísaði hún frumvarpinu að lokum til viðskiptanefndar þar sem stjórnarflokkarnir hafa þrjá af níu fulltrúum og þurfa því að reiða sig á stuðning fulltrúa Framsóknarflokksins til að koma málinu úr nefnd.

Heimildarmenn fréttastofu innan stjórnarflokkanna telja stuðninginn nokkuð vísan og eru bjartsýnir á að málið komi úr nefnd í næstu viku og verði jafnvel að lögum innan tveggja vikna. Málið er eitt af helstu forgangsmálum ríkisstjórnarinnar en þrátt fyrir augljósan og einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar sitja tveir af þremur seðlabankastjórum enn og þar af formaður bankastjórnarinnar, Davíð Oddsson sem fastast. Ingimundur Friðriksson lét af störfum á mánudag og í gær lýsti Eiríkur Guðnason því yfir að hann býðist til að láta af störfum í júní.

En hvað skilur frumvörpin þrjú að? Frumvörp ríkisstjórnarinnar og frjálslyndra gera ráð fyrir einum bankastjóra en Framsóknarmanna fyrir þremur áfram, í öllum frumvörpunum er gert ráð fyrir að staðan eða stöðurnar verði auglýstar, ríkisstjórnin vill að ráðningartími verði sjö ár, mest í tvígang, Framsókn vill óbreytt fyrirkomulag en frjálslyndir að ráðið verði til fimm ára og aldrei oftar en tvisvar.

Öll gera frumvörpin ráð fyrir háskólamenntun en hún er tilgreind nánar í stjórnarfrumvarpinu en í hinum frumvörpunum og með mismundandi orðalagi er krafist reynslu af peningamálum. Mestur ágreiningur verður sennilega um peningastefnunefnd, sem er ný nefnd sem stjórnarflokkarnir leggja til að starfi með bankastjóra að mótun peningamálastefnunnar.

Ef stjórnarfrumvarpið verður að lögum á næstu 2 - 3 vikum, verður staðan væntanlega augýst strax og þá getur forsætisráðherra skipað bankastjóra til bráðabirgða þar til nýr verður ráðinn, því með frumvarpinu yrði staða núverandi bankastjóra lagðar niður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×