Innlent

Dalai Lama væntanlegur til Íslands

Dalai Lama handhafi Friðarverðlauna Nóbels og andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta.
Dalai Lama handhafi Friðarverðlauna Nóbels og andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta.
Dalai Lama handhafi Friðarverðlauna Nóbels og andlegur og veraldlegur leiðtogi Tíbeta, er væntanlegur til landsins og mun dvelja á Íslandi dagana 1.-3. júní næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Dalai Lama heimsækir Ísland en hann hefur heimsótt fjölda landa undanfarin 50 ár, ýmist sem gestur trúfélaga, ríkisstjórna eða í boði einkaaðila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Meðan á dvöl hans stendur mun Dalai Lama halda fyrirlestur þar sem hann fjallar um lífsgildi, viðhorf og leiðir til lífshamingju ásamt því að svara fyrirspurnum. Fyrirlesturinn verður haldinn í Laugardalshöll þann 2. júní kl. 15:00. Miðasala er hafin á www.midi.is," segir í tilkynningunni.

Dalai Lama er þekktur um allan heim fyrir að hafa aldrei kvikað frá þeirri stefnu að leita friðsamlegra lausna í málefnum Tíbets. Hann hefur verið óþreytandi baráttumaður og málsvari þjóðar sinnar frá því að hann flúði landið sitt árið 1959. Upp frá því hefur hann haft aðsetur í Indlandi og stýrt þaðan ríkisstjórn sinni í útlegð.

Félagið Dalai Lama á Íslandi stendur fyrir heimsókninni og hefur séð um allan undirbúning hennar. Aðrir dagskrárliðir heimsóknarinnar verða auglýstir síðar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×