Erlent

Obama álíka vinsæll og Reagan

Barack Obama.
Barack Obama.

Þrír fjórðu Bandaríkjamanna telja Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseta, sterkan og einarðan leiðtoga. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar. Forseti Bandaríkjanna hefur ekki fengið jafn góða útkomu hvað þetta varðar í nærri þrjá áratugi.

Samkvæmt nýrri könnun fyrir bandarísku fréttasjónvarpsstöðina CNN telja sjötíu og sex prósent Bandaríkjamanna að Barack Obama, sem tekur við forsetaembættinu í Bandaríkjunum tuttugasta þessa mánaðar, sé sterkur leiðtogi fullur af sjálfsöryggi.

Sérfræðingar segja nýjan forseta ekki hafa mælst betur síðan Ronald Reagan í janúar 1981 skömmu áður en hann tók við Hvíta húsinu. Aðeins sex af hverjum tíu töldu George W. Bush, fráfarandi forseta, jafn sterkan leiðtoga þegar hann tók við 2001.

Skömmu eftir hryðjuverkárásirnar á Bandaríkin ellefta september 2001 töldu þrír fjórðu Bandaríkjamanna hann sterkan leiðtoga sem er í samræmi við álit þeirra á Obama núna. Sextíu og sjö prósent Bandaríkjamanna töldu Bill Clinton sterkan leiðtoga þegar hann tók við í janúar 1993.

Í könnun CNN kemur einnig fram að átta af hverjum tíu Bandaríkjamönnum telja að Obama geti komið hlutum í verk. Hann mælist einnig hátt þegar kemur að heiðarleika, lífsgildum, málefnum, stjórnunarhæfileikum og getu til að sýna samúð.

Verst mælist hann þegar spurt er hvort Obama veki aðdáun meðal aðspurðra. Sextíu og sjö prósent segja svo vera sem er svipað og hjá Bush í janúar 2001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×