Lífið

SPILAR Á FJÖGUR HLJÓÐFÆRI OG FORELDRARNIR Í SINFÓ

gummzter Rapparinn Gummzter gefur út sína fyrstu plötu 22. október næstkomandi.fréttablaðið/gva
gummzter Rapparinn Gummzter gefur út sína fyrstu plötu 22. október næstkomandi.fréttablaðið/gva

Sautján ára rappari sem kallar sig Gummzter gefur á næstunni út sína fyrstu plötu, Erkiengill. Hann á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana því foreldrar hans eru í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Ég er í aðeins öðruvísi stefnu en þau, en tónlist er tónlist,“ segir Gummzter, eða Guðmundur Snorri Sigurðsson. Foreldrar hans eru píanóleikarinn Anna Guðný Guðmundsdóttir og Sigurður Ingvi Snorrason klarinettuleikari. Anna sendi einmitt frá sér plötu fyrir stuttu sem kom út á vegum útgáfufyrirtækis eiginmannsins, Musis, og fékk hún fullt hús stiga í Morgunblaðinu. Plata Guðmundar kemur einnig út hjá fyrirtækinu og því má með sanni segja að fjölskyldan haldi vel á spöðunum hvað tónlistina varðar.

Guðmundur er yngstur í fjögurra systkina hópi og sá eini sem hefur lagt tónlistina fyrir sig. Hin þrjú eru öll önnum kafin í rallíkrossi og Guðmundur útilokar ekki að spreyta sig á því þegar hann hefur aldur til.

Átta ára byrjaði hann að spila á hljóðfæri eftir að hafa verið hvattur til þess af foreldrum sínum. Hann lærði á harmóniku, píanó, klarinett og rafmagnsgítar en það var ekki fyrr en hann fór að semja sína eigin texta að hip-hopið tók völdin. Tónlistarstefnan hefur verið í nokkurri lægð undanfarið og því vill Gummzter breyta. „Það er voðalega lítill markaður fyrir þetta á Íslandi en maður verður að vera aktívur svo að orðið komist út,“ segir hann og nefnir Eminem og Promo sem sína helstu áhrifavalda.

Erkiengil tók hann upp í 23 daga lotu í 12 til 14 tíma á dag með aðstoð félaga síns Tonis. Einnig komu við sögu gestasöngvararnir Delta, Prins Leó, Spek og Ragnheiður Erla, sem eru öll úr Mosfellsbænum eins og þeir Guðmundur og Toni.

Sextán lög eru á plötunni, þar á meðal hið grípandi Svona á mér að líða, sem hefur notið töluverðra vinsælda. Með plötunni fylgir 24 blaðsíðna bæklingur með textum og ljósmyndum sem Guðmundur lagði mikla vinnu í.

Útgáfudagur plötunnar er 22. október og verður hún fáanleg í Skífunni, 12 Tónum og Smekkleysu.freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.