Innlent

Tvö börn í hverjum grunnskólabekk lögð í einelti

Tvö börn í hverjum einasta grunnskólabekk á Íslandi eru lögð í einelti og vísbendingar eru um að þessum börnum fari fjölgandi. Móðir drengs sem svipti sig lífi eftir að hafa verið miskunnarlaust lagður í einelti segir allt of lítið gert til að sporna við ofbeldinu.

Samtökin Heimili og Skóli hleyptu í dag af stokkunum mikil eineltisátaki. Samtökin hafa gefið út fræðslurit fyrir foreldra en því verður meðal annars dreift til allra barna í 5. bekk. Tvær konur sem þekkja einelti af eigin raun sögðu af þessu tilefni frá reynslu sinni í Austurbæjarskóla í dag.

Önnur þeirra, Þórkatla Sigurðardóttir, kennari. hefur verið að vinna úr reynslu sinni í 18 ár. Hún segir það vanmetið hvernig eineltið fylgir fórnarlömbum þess út í lífið

Einn þeirra sem ekki náði að vinna úr sinni reynslu er Lárus Stefán Þráinsson. Hann varð fyrir miskunnarlausu einelti í grunnskóla. Þegar hann var orðinn 21 árs varð þessi þungbæra reynsla honum ofviða. Hann svipti sig lífi.

Ingibjörg Baldursdóttir, móðir Lárusar, segir að allt of lítið sé gert til að sporna við ofbeldinu. Hún hefur ekki setið auðum höndum síðan sonur hennar féll frá. Ingibjörg stofnaði samtökin Liðsmenn Jeríkó sem eru hagsmunasamtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.

Þeir sem vilja afla sér upplýsinga um átaksverkefnið geta farið inn á heimiliogskóli.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×