Innlent

Flatur Helgukoss fæst í Hafnarfirði

Flatt trýni, kennt við kossinn hennar Helgu, er komið framan á smábáta sem Trefjar í Hafnarfirði smíða fyrir Noregsmarkað, - þó ekki til að kljúfa ölduna betur heldur til að smjúga betur inn í norskt fiskveiðikerfi.

Þeir bíða í röð bátarnir eftir að komast til norskra kaupenda, og allir með slétt stefni. Fyrirbærið kalla Norðmenn Helgukossinn, eftir Helgu Pettersen, sem var sjávarútvegsráðherra Noregs fyrir tveimur árum, þegar sú regla var sett að bátar undir 11 metrum fengju frjálsar veiðar. Með flatt trýnið mælast bátarnir 10,99 metrar.

Svona trikk var þekkt hérlendis fyrir um aldarfjórðungi en nú er því beitt til að komast inn í reglugerðarflokkinn hennar Helgu.

Bátasmíði fyrir innanlandsmarkað er orðin hverfandi og því stóla Trefjamenn á erlenda kaupendur. Fyrirtækið hefur að stórum hluta verið útflutningsfyrirtæki í bátasmíði undanfarin 9 ár. Erlendir kaupendur, einkum í Noregi og á Bretlandseyjum, stuðla þannig að atvinnu fyrir liðlega 40 starfsmenn. Næsta ár er nærri því uppselt og horfur góðar, að sögn framkvæmdastjórans, Högna Bergþórssonar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×