Erlent

Meðlimur Mansonfjölskyldunnar vill reynslulausn

Susan Atkins fyrir rúmum 40 árum við réttarhöldin.
Susan Atkins fyrir rúmum 40 árum við réttarhöldin.

Susan Atkins sem tilheyrði Mansonfjölskyldunni illræmdu kemur fyrir náðunar- og skilorðsnefnd á morgun. Susan var ásamt fjórum öðrum sakfelld í október árið 1969 fyrir hrottaleg morð en þá var hún 21 árs.

Hin 61 ára gamla Susan er alvarlega veik en hún er með heilaæxli og að mestu lömuð. Henni var síðast neitað um lausn til reynslu síðasta sumar en samtals hefur henni verið neitað um reynslulausn 13 sinnum. Engin önnur núlifandi kona hefur setið jafn lengi í fangelsi í Kaliforníu.

Mansonfjölskyldan réðst inn á heimili Sharon Tate og leikstjórans Romans Polanskis, sem var að heiman, í ágúst 1969. Þar réðst fjölskyldan meðal annars á Tate sem var komin átta mánuði á leið með frumburð sinn og Romans. Susan hélt Sharon niðri sem var stungin 16 sinnum. Kvöldið eftir myrti Mansonfjölskyldan auðugt par á heimili sínu í Los Angeles.

Charles Manson, höfuð Mansonfjölskyldunnar, sem er 75 ára situr enn inn í fangelsi og á rétt á að koma fyrir náðunar- og skilorðsnefnd 2012. Hann hefur ítrekað reynt að fá reynslulausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×