Innlent

Tólf mánaða fangelsi fyrir hnífsstungu

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Tuttugu og eins árs gamall karlmaður, Frans Friðriksson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í desember á síðata ári, þar af eru 9 mánuðir skilorðsbundnir.

Frans var dæmdur fyrir að stinga mann á Hverfisgötu í Reykjavík og skera annan. Var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps en til vara sérstaklega hættulega likamsárás.

Hann var semsagt sýknaður af tilraun til manndráps en dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.

Stakk hann fyrrnefnda manninn með hnífi í vinstra brjósthol, með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulega áverka. Þá skar hann þann síðarnefnda á vinstri hendi er hann reyndi að forða félaga sínum frá atlögunni. Við það hlaut hann opið sár á öðrum hluta úlnliðs og handar.

Fyrir dómi sagðist Frans hafa lent í útistöðum við piltana á Hverfisbarnum fyrr um nóttina en þessir sömu menn hafi lamið hann fyrir utan Hlöllabáta árið 2007. Sá sem fyrir árásinni varð sagði það hinsvegar ekki rétt, enda hefði hann aldrei hitt Frans áður.

Eftir stympingarnar á Hverfisbarnum hafi hann hlaupið upp í bíl sinn og ætlað að aka á brott. Sagðist hann hafa ekið af stað en eftir smástund hafi hann stansað og farið að hugsa með sér að hann gæti ekki verið á endalausum flótta undan mönnunum sem hann hefði ekkert gert.

„Hann kvaðst því hafa snúið við og ekið fram hjá Hverfisbarnum og beðið í örfáar mínútur. Þegar ákærði sá 5 til 6 menn koma út af staðnum ók hann í áttina að þeim, skrúfaði niður rúðuna og spurði þá um nöfn og hvað hann hefði gert þeim. Við það var eins og fjandinn yrði laus, eins og ákærði orðaði það....„

Sá sam hann stakk hafi verið kominn hálfur inn í bifreiðina og félagi hans hefði staðið fyrir aftan hann og verið að slá til sín og kýla sig eins og hinir tveir.

„Hann kvaðst ekki hafa slegið til baka og ekki reynt að skrúfa upp rúðurnar. Ákærði kvaðst hafa grúft sig niður og þá séð opinn hníf milli sætanna og teygt sig í hann, en ætlun hans hafi verið að hóta með honum í átt að glugganum....„

Þar var sá sem hann stakk en hann sagðist einungis hafa ætla að hóta honum með hnífnum en ekki meiða neinn.

„Ákærði kvaðst hafa lyft hnífnum upp og sveiflað honum einu sinni og við fyrstu mótspyrnu kvaðst hann hafa gefið eftir og ekið á brott. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir að hnífurinn stöðvaðist á einhverju og hefði kannski skilið eftir sig smásár, eins og ákærði orðaði það."

Frans var því dæmdur í 12 mánaða fangelsi eins og fyrr segir, en fresta skal fullnustu 9 mánaða og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins.

Þá var hann einnig dæmdur til þess að greiða öðru fórnarlambinu 500.000 krónur í skaðabætur og hinum piltinum 80.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×