Erlent

Sært bjarndýr gengur laust í Noregi

Norska lögreglan hefur varað vegfarendur við særðu bjarndýri sem leynist í skóglendi í grennd við Þrándheim. Bjarndýrið varð fyrir bíl seint í gærkvöldi. Bíllinn stórskemmdist en bílstjórinn slapp ómeiddur. Björninn lá góða stund vankaður við vegbrúnina en hvarf svo til skógar.

Lögreglan telur ástæðu til að ætla að björninn sé særður. Þar sem særð bjarndýr eru talin sérlega hættuleg hafa vegfarendur verið varaðir við. Einnig hefur verið haft samband við fólk sem á sumarhús á þessum slóðum.

Auk þess sem björninn telst vera hættulegur þykir ómannúðlegt að skilja hann eftir slasaðan. Því voru sérþjálfaðir veiðimenn sendir frá Þrándheimi í morgun til þess að hafa uppá honum og aflífa hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×