Innlent

Uppgjör fanga leiddi til íkveikju

Valur Grettisson skrifar
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, gagnrýnir fréttaflutning DV harðlega.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, gagnrýnir fréttaflutning DV harðlega.

Aðstandendur fanga á Litla Hrauni reyndu að fá upplýsingar um fanga fram til þrjú um nóttina að sögn Páls Winkels, fangelsismálastjóra, en hann gagnrýnir fréttaflutning dv.is harðlega. Þar var sagt frá því í gærkvöldi að kveikt hefði verið eldur í fjórum fangaklefum og að uppreisnar-ástand ríkti á Litla Hrauni. Þetta segir Páll alrangt, einn fangi hafi kveikt í ruslafötu og eldurinn slökktur stuttu síðar. Atvikið átt sér stað í gærkvöldi. Ástæðan var uppgjör tveggja fanga.

„Þetta er bara ekkert í líkingu við uppreisn," segir Páll sem var sjálfum brugðið eftir fréttaflutning vefsíðu DV og gagnrýnir hana harðlega. Hann segir að aðstandendur fanga hafi óttast hið versta.

„Þú getur rétt ímyndað þér ef þú átt aðstandendur þarna, þeim var svo brugðið að við vorum að taka við símtölum til þrjú í nótt," segir Páll en hann segir að enginn hafi skaðast vegna íkveikjunnar. Viðbrögð starfsfólks á Litla Hrauni hafi verið hröð og fumlaus, fangavörður slökkti eldinn og svo reykræsti slökkviliðið í kjölfarið.

Spurður um tilurð þess að fanginn hafi kveikt eldinn segir hann að um óuppgjarðar sakir hafi verið að ræða. Til þess að fyrirbyggja átök hafi fanginn verið læstur inni í klefa sínum sem varð til þess að hann kveikti í lítilli ruslafötu. Hann segir fangann verða beittur agaviðurlögum, sé brotið alvarlegt, þá er viðkomandi vistaður í einangrun. Spurður hvort litið sé á íkveikjuna sem alvarlegt brot, svarar Páll því játandi.

Aðspurður segir Páll íkveikjuna ekki vera einsdæmi, þó það sé langt síðan hliðstætt mál hafi komið upp.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×