Innlent

Forsetinn fær að svara fyrir sig

Árni Þór, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar.
Forsetaembættinu gefst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við utanríkismálanefnd í tengslum við beiðni Björns Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, frá því í morgun. Á fundi nefndarinnar óskaði Björn eftir skýrslu frá utanríkisráðuneytinu um áhrif blaðaummæla vegna viðtals við Ólaf Ragnar Grímsson í þýskri útgáfu Financial Times sem birt var í gær.

Björn fór jafnframt fram á að utanríkismálanefnd yrði upplýst um það hvað „ráðuneytið hefði gert til að lægja öldur í Þýskalandi vegna gagnrýni á Ísland í tilefni af því, sem sagði í blaðinu og kennt var við Ólaf Ragnar,“ eins og segir á heimasíðu Björns.

Það var Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkisnefndar, sem lagði til að forsetaembættinu yrði gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær málið kemur til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×