Innlent

Samþykkti 24 styrki til velferðarmála

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður velferðarráðs.
Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er formaður velferðarráðs.
Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag 24 nýja styrki til verkefna á sviði velferðarmála. Nýir styrkir og þjónustusamningar Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar nema nú 33 milljónum króna, en samtals er varið 180 milljónum króna til verkefna og þjónustusamninga á árinu.

Fram kemur í tilkynningu að alls njóti 60 aðilar sem sinna verkefnum og þjónustu á sviði velferðarmála styrkja frá velferðarráði og þjónustusamninga við Velferðarsvið á árinu.

Í bókun velferðarráðs vegna samþykktarinnar segir meðal annars: „Í ljósi erfiðs efnahagsástands er ljóst að ekki var hægt að verða við nema broti af þeim óskum sem bárust velferðarráði um styrki. Það er þó mikils um vert að tekist hefur að afgreiða styrki velferðarráðs í samstöðu alls ráðsins. Lögð var áhersla á að styðja sérstaklega við þá aðila sem búast má við að álag muni aukast á í versnandi árferði s.s. Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar auk þess sem aðgerðarhópur borgarráðs hafði áður lagt aukið fjármagn til Rauða Kross Íslands, Stígamóta og Kvennaathvarfsins. Styrkur til Fjölskylduhjálpar Íslands verður afgreiddur sérstaklega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×