Lífið

Gylfi Ægis aðalnúmerið á Innipúkanum

Fremstur meðal jafningja Gylfi Ægis er tilbúinn að spila Minningu um mann alla laugardagsnóttina ef fólk þekkir ekkert annað.
Fremstur meðal jafningja Gylfi Ægis er tilbúinn að spila Minningu um mann alla laugardagsnóttina ef fólk þekkir ekkert annað.

„Þetta leggst frábærlega í mig. Innipúkinn hefur alltaf verið skemmtileg hátíð og góð stemning í kringum þetta. Dagskráin sem við erum búin að setja saman í ár er gríðarlega öflug og spennandi, þannig að ég hlakka mikið til,“ segir Eldar Ástþórsson, einn skipuleggjenda Innipúkans í ár. Hátíðin er sem fyrr haldin um verslunarmannahelgina.

Af dagskránni ber helst að nefna Agent Fresco, Benna Hemm Hemm, Borko, Diktu, FM Belfast, Fallega menn, Gylfa Ægisson og Jóhönnu Finnborgu, eða GÆJÓ, K-Trio, Mammút, Morðingjana, Ólöfu Arnalds, Seabear, Sudden Weather Change og Sykur.

Yngri kynslóðin Krakkarnir í Mammút láta sig ekki vanta á Innipúkann.

Gylfi Ægisson spilar í fyrsta sinn á Innipúkanum og verður með tónleikana á laugardeginum. Þá eru þau GÆJÓ í Galtarlæk á sunnudeginum. „Mér fannst þetta sniðugt að prófa þetta. Það er fínt að fá eitt gamalmenni og unga konu, með létt og fjörugt prógramm,“ segir Gylfi. Hann lofar því að taka öll sín bestu lög. Syngur yngri kynslóðin með?

„Mér sýnist það að hún kunni allavega Minningu um mann. Ef þau kunna ekki hitt þá syngur maður bara Minningu um mann allt kvöldið.“

Hátíðin í ár er haldin á Sódómu og Batteríinu og stendur í þrjá daga, en ekki tvo líkt og síðustu ár. Þá er miðaverð aðeins 2.900 krónur. „Með því að lengja hátíðina um einn dag náum við að koma að fleiri hljómsveitum og búa til stærri pakka í kringum þetta, meira fjör og meiri stemmingu. Þannig að um leið að við erum að lækka miðaverðið erum við að stækka dagskrána, sem er ánægjuleg þróun,“ segir Eldar.

Síðdegis verður svo grillað í portinu við Batteríið við undirspil trúbadora, „pop-quiz“ haldin, tónlistarmarkaður og auðvitað flæðir allt í kokteilum á „Cocktail-Zeit“. Miðasala hefst á mánudag á midi.is og í Skífunni. - kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.