Innlent

Icesave skekur ríkisstjórnina

Stjórnarandstaðan mun greiða atkvæði gegn Icesave-samningnum á Alþingi, miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun allur styðja samninginn samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Verði sú raunin munu 29 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiða atkvæði gegn samningnum. Þá þurfa aðeins 3 þingmenn Vinstri grænna að greiða atkvæði gegn samningnum til að fella hann.

Þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafa öll lýst yfir efasemdum með samninginn. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur einnig verið gagnrýninn á samninginn.

„Málið er engan veginn útkljáð. Þegar það kom fyrir ríkisstjórnina lýsti ég mínum efasemdum um að gengið yrði frá málunum og veitti ekki mitt samþykki fyrir því. Forsætisráðherra var fullkunnugt um það. Ég held mig við það sem ég hef áður sagt, að ég vilji skoða málið í þaula áður en ég tek endanlega afstöðu til þess. Ég verð því miður að segja að ekki hefur dregið úr mínum efasemdum."

Fréttablaðið hafði samband við þingmenn Sjálfstæðisflokks, Borgarahreyfingar og Framsóknarflokks. Þeir þingmenn sem náðist í, sem voru allflestir, sögðust myndu greiða atkvæði gegn samningnum. Sumir, sérstaklega sjálfstæðismenn, settu þó þann fyrirvara að málið ætti eftir að koma til þinglegrar meðferðar. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir lægju greiddu þeir hins vegar atkvæði gegn honum.

Framámenn í Samfylkingunni sem rætt var við sögðust líta svo á að þetta væri fyrsti prófsteinn ríkisstjórnarinnar. Félli samningurinn riðaði stjórnin til falls. Þeir vitnuðu til orða Steingríms J. Sigfússonar um að stjórnarþingmenn stæðu að baki samningnum og sögðust líta á annað sem vantraust við Steingrím.

Ögmundur segist ekki óttast stjórnarslit, enda sé ríkisstjórnin mynduð til að standa vörð um íslenskt velferðarþjóðfélag en ekki Icesave-samninginn. Ekki náðist í fjármálaráðherra þar sem hann er erlendis. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×