Innlent

Frumkvöðlarnir verða í Toppstöðinni

Toppstöðin Landsvirkjun hefur gefið heimild fyrir tímabundin afnot af byggingu varaflstöðvar í Elliðarárdal.Fréttablaðið/Vilhelm
Toppstöðin Landsvirkjun hefur gefið heimild fyrir tímabundin afnot af byggingu varaflstöðvar í Elliðarárdal.Fréttablaðið/Vilhelm

Borgarráð hefur samþykkt að heimila rekstur frumkvöðlaseturs í svokallaðri Toppstöð í Elliðaárdal.

„Hugmyndin felst í því að skapa hönnuðum, arktitektum og iðnaðarmönnum sameiginlegan vettvang til að skapa nýjar vörur, þekkingu og hugvit í afmörkuðu rými varaflstöðvarinnar,“ segir í greinagerð með tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Semja á við áhugahóp um nýtingu Toppstöðvarinnar og sagt koma til greina að hleypa fleirum inn í húsið.

Tveir fyrrverandi borgarstjórar ítrekuðu í borgarráði að rífa ætti bygginguna.

„Ég hef verið og er enn þeirrar skoðunar að rífa eigi Toppstöðina eins og ávallt hefur staðið til, enda húsið lýti í umhverfinu,“ segir í bókun Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og tekið er í svipaðan streng í bókun Ólafs F. Magnússonar:

„Ég hvet eindregið til þess að Toppstöðin í Elliðaárdal verði rifin þegar í stað, í fyrsta lagi sem hluti verndunarstefnu gagnvart Elliðaánum í öðru lagi sem hluti atvinnuskapandi verkefnis með skýra framtíðarsýn í þágu komandi kynslóða að leiðarljósi.“

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarráðsfulltrúi vinstri grænna, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þorleifur segir nauðsynlegt að rífa húsið en að það verði borginni mjög dýrt á erfiðum tímum. „Borgarráðsfulltrúi VG telur því skynsamlegt að leyfa starfsemi í húsinu um tíma en það verður jafnframt að vera tryggt að sú starfsemi hamli ekki niðurrifi hússins þegar betur árar.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×