Innlent

Í gæsluvarðhald vegna skelfilegrar líkamsárásar

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. Mynd/ Valli
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni vegna líkamsárásar í Bakkagerði 1 á sunnudagskvöld. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. júní.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að henni hafi borist tilkynning um mikið slasaðan mann í heimahúsi í Reykjavík. Þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn alblóðugur á höfði og gekkst hann undir aðhlynningu á slysadeild Landspítalans, „þar sem hann reyndist vera með augntóftargólfsbrot á báðum augum, þrjá skurði á höfuðleðri, allir langir og gapandi. Þá hafi hann verið með tvo skurði á enni, á neðri vör hafi verið sprungið í gegn fyrir miðju, og innan á vörinni var ílangur og mjög tættur skurður. Auk þessa hafi brotaþoli hlotið marga yfirborðsáverka á höfði, brjóstkassa og útlimum."

Í kjölfarið fór lögregla að öðru húsi í Reykjavík þar sem grunur var um að brotaþoli hafi orðið fyrir árásinni. Þar inni hafi glögglega mátt sjá ummerki eftir líkamsárás, enda blóð víða á veggjum, þvegill, sem hafi verið blautur og blóði drifinn, á gólfi, þá hafi mátt finna blóð á húsgögnum. Þá fannst blautt og blóðugt handklæði í ruslatunnu við húsið.

Í þessari heimsókn voru fimm handteknir, þar á meðal hinn kærði. Lögregla telur nauðsynlegt vegna rannsóknarhagsmuna að kærði verði áfram í haldi. Þá leitar lögregla einnig að bróður kærða sem er sterklega grunaður um aðild að málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×