Innlent

Mat á umsækjendum um seðlabankastjórastöðu birt

Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri, er formaður nefndarinnar.
Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri, er formaður nefndarinnar. Mynd/Stefán Karlsson

Forsætisráðuneytið hefur birt niðurstöður matsnefndar um hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Niðurstöður nefndarinnar bárust ráðuneytinu 29. maí en hún sér ekki ástæðu til að endurskoða mat sitt.

Umsækjendur áttu kost á að koma athugasemdum við niðurstöður nefndarinnar á framfæri við ráðuneytið. Athugasemdir bárust frá 11 þeirra og óskaði ráðuneytið því eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún teldi að athugasemdir umsækjenda gæfu tilefni til þess að nefndin endurskoðaði mat sitt á viðkomandi.

Þorvaldur Gylfason prófessor var einn þeirra sem gerði athugasemd við mat nefndarinnar en hún kemst að þeirri niðurstöðu að Þorvald skorti beina reynslu af stjórn peningamála sem aðrir umsækjendur hafa til að bera.

Matsnefndin var skipuð 5. maí. Í henni áttu sæti þau Guðmundur K. Magnússon, skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, Lára V. Júlíusdóttir, skipuð samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og Jónas Haraldz, skipaður án tilnefningar og var hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Ákvörðun forsætisráðherra um skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra mun liggja fyrir fljótlega, að fram kemur í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×