Innlent

Sektaður fyrir að misþyrma barnsmóður

Karlmaður var dæmdur til þess að greiða 150 þúsund króna sekt fyrir að slá barnsmóður sína í andlitið í ágúst 2008.

Maðurinn kom ölvaður heim til hennar og heimtaði að fá að sjá son sinn. Hún hafi bannað honum það sökum ölvunar. Hann sakaði hana um að reyna að koma í veg fyrir að hann fengi að sjá drenginn.

Síðan virðist hann hafa gripið í andlit konunnar og kreist það með þeim afleiðingum að hún blóðgaðist og bólgnaði öll upp.

Maðurinn neitaði sök í málinu. Hann sagði að þau hefðu sofið saman þetta kvöld. Svo hefði konan reiðst, „og byrjaði að lemja hann eins og konur geri þegar þær verði reiðar," eins og hann orðaði það sjálfur fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Hann sagðist hafa ýtt henni úr rúminu og hún hefði þá dottið á hurð og meitt sig.

Dómurinn taldi þessa frásögn fjarstæðukennda.

Maðurinn sagðist vera giftur og eiga í kynlífsambandi með konunni. Þau eiga í forræðisbaráttu en hann fékk að sjá drenginn á tveggja mánaða fresti. Eftir árásina hafi hann hinsvegar ekki hitt drenginn í hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×