Erlent

Lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun og morð

Steven Green.
Steven Green.
Bandaríski hermaðurinn Steven Green sem nauðgaði og myrti 14 ára gamla íraska stelpu eftir að hafa skotið foreldra hennar og yngri systur til bana hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Green slapp við dauðadóm eftir að dómarar gátu ekki komið sér saman um refsingu. Green var hinsvegar sakfelldur fyrir að hafa verið aðalmaðurinn í árásinni og var dæmdur sekur um morð, nauðgun og fyrir að hafa hindrað framgang réttvísinnar.

Green leiddi hóp fimm hermanna sem réðust inn á heimili íraskrar fjölskyldu í Mahmudiya, rétt fyrir utan Bagdad, þann 12. mars árið 2006. Á meðan tveir félagar hans réðust að stúlkunni, skaut Green móður, föður og sex ára gamla systur stúlkunnar til bana í svefnherbergi þeirra.

Hann tók síðan þátt í hópnauðgun áður en hann skaut stúlkuna þrisvar í höfuðið áður en hann kveikti í líkinu. Af hinum hermönnunum játuðu þrír aðild sína að málinu en máli eins þeirra var vísað til herdómstóls. Þeir fengu fangelsisdóma frá 5-100 ára.

„Við vonum innilega að refsingin hjálpi ástvinum fjölskyldunnar og veiti þeim einhverja ró eftir þessa hræðilegu abruði," sagði Rodney Johnson yfirmaður í hernum eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Skyldmenni fjölskyldunnar voru við réttarhöldin og sagði frændi stúlkunnar Green vera heigul sem ætti að gjalda fyrir gjörðir sínar.

„Andlit þessarar saklausu stúlku mun elta þig í dimmum fangaklefanum það sem eftir er ævi þinnar," sagði frændinn við réttarhöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×