Innlent

Segir ORA vísvitandi blekkja

Fyrrverandi framleiðslustjóri hjá ORA segir fyrirtækið vísvitandi blekkja neytendur um uppruna vöru sinnar. ORA fiskibollur séu fjarri því að vera íslenskar, fiskurinn sé færeyskur.

Niðursuðuverksmiðjan Ora er rótgróin og flestir álíta líklega vörur þeirra vera íslenskar. En eins og fram kom í fréttaskýringu Stöðvar 2 í gær um Veljum íslenskt átakið eru áhöld um hvað telst íslensk vara. Við vinnslu fréttaskýringarinnar var leitað eftir viðtali við stjórnendur ORA en þeir báðust undan því. Fréttastofa ræddi hins vegar í dag við fyrrverandi framleiðslustjóra ORA, Stefán Rögnvaldsson. Hann starfaði hjá fyrirtækinu í 22 ár, en lét af störfum fyrir nokkrum árum.

ORA fiskibollur ruku út eftir að herferð Samtaka iðnaðarins Veljum íslenskt fór af stað. Fimmtíu prósent fleiri bollur seldust í október en að jafnaði. Stefán fullyrðir hins vegar að ORA fiskibollur séu ekki unnar úr íslenskum fiski.

Bollurnar séu vissulega soðnar niður og mótaðar á Íslandi. Hvergi kemur fram á dósinni hvaðan fiskurinn er.

Um 150 tegundir af matvælum eru seldar undir merkjum ORA. Á mörgum þeirra kemur fram hvar varan er framleidd eða hvaðan hráefnið kemur. En alls ekki öllum. Og því fer fjarri, segir Stefán að megnið af ORA vörum sé framleiddur á Íslandi, miklu nær að það sé um helmingur.

Stefán tekur sem dæmi að Ora tómatsósa sé til dæmis framleidd í Bandaríkjunum, sömuleiðis ora ananas, rauðrófur komi tilbúnar í krukkum frá Danmörku, sardínur frá Noregi.

Stefán kveðst hafa beitt sér fyrir því sem framleiðslustjóri hjá ORA að innflutta varan væri aðgreind frá hinni erlendu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×