Erlent

Þrumuguð velgir innbrotsþjófi undir uggum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eins og ráða má af þessari mynd hefur það ekki verið neitt grín að mæta Torvald Alexander um niðdimma nótt.
Eins og ráða má af þessari mynd hefur það ekki verið neitt grín að mæta Torvald Alexander um niðdimma nótt. MYND/Kent News and Pictures

Innbrotsþjófur í Edinborg í Skotlandi lagði á flótta þegar húsráðandi kom heim af grímudansleik, dulbúinn sem þrumuguðinn Þór.

Þór er samkvæmt Snorra-Eddu þekktastur fyrir að berja á tröllum og þursum í Austurvegi með hamri sínum Mjölni. Hvorki var það þó tröll né þurs sem stóð fyrir framan skrifborð á heimili byggingarverktakans Torvalds Alexander og skimaði eftir verðmætum. Þar var um ósköp venjulegan innbrotsþjóf að ræða.

Alexander var hins vegar ekki í sínum hefðbundna vinnufatnaði þar sem hann var að koma heim af grímudansleik um miðja nótt. Hann var klæddur sem Þór þrumuguð, með hjálm prýddan silfruðum hornum og sveipaður síðri rauðri skikkju. Auk alls þessa er maðurinn tæpir tveir metrar á hæð og hefur því að líkindum verið heldur óárennilegur í myrkrinu.

Þjófurinn sá enda sitt óvænna og fleygði sér felmtri sleginn út um næsta glugga, sem reyndar var á jarðhæð, og skildi skóna sína eftir í óðagotinu en úr þeim hafði hann farið til að síður heyrðist til hans. Þrumuguðinn og byggingarverktakinn skoski segir að væntanlega hugsi kauði sig tvisvar um næst áður en hann brýst inn til norrænna goða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×