Lífið

Klippimyndir Sigríðar til sölu

Fjórða einkasýning Sigríðar Níelsdóttur hefst í 12 Tónum í dag.
Fjórða einkasýning Sigríðar Níelsdóttur hefst í 12 Tónum í dag.

Sigríður Níelsdóttir opnar sína fjórðu einkasýningu í 12 Tónum við Skólavörðustíg í dag. Sýndar verða 24 klippimyndir sem hún hefur unnið undanfarið ár. „Þetta eru klippimyndir úr blöðum og öllu sem ég kemst yfir og geri úr því myndir," segir Sigríður, sem er 79 ára og býr á Reyðarfirði.

„Það getur verið landslag, bátur, rúta, dýr eða ýmislegt annað og þetta er allt innrammað," segir hún og bætir við að engar tvær myndir séu eins.

Verk Sigríðar hafa fengið góðar viðtökur í gegnum árin og selst afar vel. Hún segist ekki vita hvort einhverjir safni myndunum en tekur fram að stundum hafi þær verið keyptar sem gjafir, enda séu þær ekki mjög dýrar.

Sigríður er einnig þekkt fyrir tónlistarsköpun sína og mikil afköst á því sviði. Alls hefur hún sent frá sér rúmlega sextíu geisladiska á undanförnum níu árum og vakið athygli bæði hér heima og erlendis fyrir einlæga tónlist sína. Lög eftir hana hafa hljómað í tveimur myndum Dags Kára Péturssonar, Nóa albinóa og Voksne Mennesker og einnig verður lag eftir hana í nýjustu mynd hans, The Good Heart.

Að auki hafa þau Kristín Björk Kristjánsdóttir (Kira Kira) og Orri Jónsson, sem hefur unnið með Degi Kára, verið að vinna heimildarmynd um Sigríði. „Þau voru að vonast til að klára hana einhvern tímann í sumar. Þetta er skemmtilegt fólk að umgangast," segir Sigríður.

Sýningin í 12 Tónum stendur yfir til 1. september. Opnunin í dag verður haldin á milli 17 og 18.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×