Innlent

Fjárfestingastarfsemi aðskilin hefðbundinni bankaþjónustu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Í verðbréfadeild. Mynd úr safni.
Í verðbréfadeild. Mynd úr safni. Mynd/Vilhelm
Í drögum að nýrri eigandastefnu ríkisins er meðal annars kveðið á um að fjármálastofnanir sem ríkið á hlut í skulu halda fjárfestingabankastarfsemi skýrt afmarkaðri frá grunnstarfsemi sinni og leggja áherslu á hefðbundna viðskiptabankastarfsemi.

Eigandastefna ríkisins fjallar um þá stefnu sem ríkið hefur markað sér sem eigandi að fjármálafyrirtækjum, en hluta eigandastefnunnar má yfirfæra á eignarhluti ríkisins í öðrum fyrirtækjum. Stefnan var kynnt á fundi viðskiptanefndar Alþingis í gær.

Þar kennir ýmissa grasa, en í stefnunni er fjallað um markmið ríkisins sem eiganda, skipulag eigandahlutverksins, meginreglur ríkisins sem eiganda og kröfur og viðmið þess í rekstri fjármálafyrirtækja.

Þar er lögð áhersla á að endurheimta traust í fjármálakerfinu og stuðla að samkeppni og uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis. Meðal annars ber fyrirtækjunum að leitast við að gæta jafnræðis gagnvart öllum viðskiptavinum sínum.

Þá kemur fram að ríkið leggi áherslu á að eiginfjárframlag þess til fjármálafyrirtækja skili ríkinu eðlilegri arðsemi.

Til framtíðar skulu íslensk fjármálafyrirtæki vera með dreifða eignaraðild. Breytingar á eignarhaldi eða sala á eignarhlutum skulu háð ákvörðunum ríkisstjórnar.

Áhersla er lögð á samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækjanna og skulu þau starfa samkvæmt skriflegri stefnu um siðferði sem bankastjórn samþykkir. Þá er þeim skylt að tryggja fullt jafnrétti kynja í launamálum.

Drög að eigandastefnu ríkisins má nálgast í heild sinni hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×