Innlent

Iðnaðarráðherra á fundi orkumálaráðherra ESB

Orkumálaráðherrar ESB sitja nú á óformlegum fundi í Åre, Svíþjóð, til að ræða græna hagkerfið og bætta orkunýtingu. Til fundarins er boðið ráðherrum EFTA ríkjanna. Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sækir fundinn fyrir hönd Íslands.

Í umræðunum um bætta orkunýtingu og þau sóknarfæri út úr efnahagssamdrættinum sem felast í umhverfis- og orkumálum lagði iðnaðarráðherra áherslu á tvennt, að því er segir í tilkynningu.

Í fyrsta lagi að efla samstarf og rannsóknir á sviði jarðhita enda sameinuðu jarðvarmaver yfirleitt raforkuframleiðslu og hitaveitur og möguleikar á nýtingu væru víða í Evrópu. Auk þess mætti yfirfæra þekkingu til að efla uppbyggingu hitaveita sem Evrópusambandið leggur vaxandi áherslu á.

Í öðru lagi að ívilna fyrirtækjum sem vilja nýta ónýtta umframorku á borð við jarðgufu frá jarðhitaverum og fyrirtækjum sem velja sér staðsetningu gagngert til að nýta endurnýjanlega orku eða draga verulega úr orkuþörf, t.d. með minni kæliþörf.

Á morgun, föstudag, verður sameiginlegur fundur með umhverfisráðherrum ESB þar sem græna hagkerfið verður sérstaklega rætt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×