Lífið

Sýnir leikrit á heimilum annarra

Fluttir inn Ævar Þór og Hlynur Páll færa sig inn í stofu velunnara síns.
Fluttir inn Ævar Þór og Hlynur Páll færa sig inn í stofu velunnara síns.

Ævar Þór Benediktsson leiklistarnemi setur upp einleikinn Ellý, alltaf góð eftir Þorvald Þorsteinsson í heimahúsum. Ekki sínu reyndar, heldur hjá velunnurum sínum.

Þorvaldur skrifaði verkið árið 1999 og lét það í hendur Ævars eftir að hafa séð hann í uppsetningu Menntaskólans á Akureyri á Hárinu. Ævar setti það fyrst upp í leikstjórn Skúla Gautasonar í hlöðunni á Litla-Garði sumarið 2003.

„Verkið er tíu ára í ár og Þorvaldur er aðeins að kíkja á það í tilefni uppsetningarinnar,“ segir Ævar. Sjálfur vill hann koma að því að nýju með þeim verkfærum sem hann hefur viðað að sér í og með námi við Listaháskóla Íslands.

Ævar fékk félaga sinn Hlyn Pál Pálsson til að leikstýra sér, en Hlynur er nýútskrifaður úr Fræðum og framkvæmd og lék Ævar í lokaverkefni hans.

„Við erum báðir áfjáðir í að gera eitthvað sem kraftur er í.“ En um hvað er Ellý?

„Verkið er um baráttuna fyrir því að vera góður strákur. Það er gluggi inn í líf þessa manns. Við fáum tækifæri til að líta inn í hálftíma eða svo.“

Hann segir því eðlilegast að setja verkið upp heima í stofu.

„Við erum að leita að íbúðum og það stefnir í það að við munum rótera á milli tveggja til þriggja íbúða. Það eru furðu fáar lausar íbúðir á miðbæjarsvæðinu, þannig að ef einhver vill aðstoða þá væri það kærkomið.“

Hann segist ekki vilja leikhúsvæða íbúðirnar heldur komi fólk bara í heimsókn og setjist þar sem er sæti.

En hann sýnir ekki heima hjá sjálfum sér.

„Vegna þess að þetta er ekki ég, þessi maður. Hann á ekki heima í sama húsi og ég, allavega ekki í sömu íbúð.“

Verkið er sýnt á artFart 9.-13. ágúst og hægt verður að nálgast miða á artfart.is. - kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.