Innlent

Ríflega 300 milljóna aukaniðurskurður í dómsmálaráðuneytinu

Dómsmálaráðuneytið boðar niðurskurð til viðbótar á síðari hluta þessa árs.
Dómsmálaráðuneytið boðar niðurskurð til viðbótar á síðari hluta þessa árs.

Dómsmálaráðuneytið hefur boðað forstöðumönnum flestra stofnana sem undir það heyra niðurskurð á seinni hluta þessa árs upp á ríflega 300 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Þessi niðurskurður í rekstri umræddra stofnana kemur til viðbótar þeim niður­skurði sem áður hafði verið ákveðinn fyrir þetta ár.

Jón Magnússon, skrifstofustjóri rekstrar- og fjármálaskrifstofu ráðuneytisins, vildi ekki láta af hendi upplýsingar um niðurskurð hjá einstökum stofnunum, þar sem þær flokkuðust undir vinnuskjöl þess. Þær yrðu gerðar opinberar með frumvarpi til fjáraukalaga.

Sem dæmi má nefna að Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er gert að skera niður um sextíu milljónir króna á seinni hluta ársins, samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið hefur aflað sér. Forstjóra Fangelsismálastofnunar er gert að skera niður um tuttugu milljónir.

Jón Magnússon sagði enn fremur að í tölvupóstum til forstöðumannanna hefði, auk tilkynningar um niðurskurðartölu viðkomandi, verið vakin athygli á því að væntanlega þyrfti að meðaltali að skera niður um tíu prósent á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×