Lífið

Góðhjartaðir Eyjapeyjar

Góðhjartaðir vinir Lúkas og Jóel söfnuðu fé til styrktar Göngum saman með því að leika tónlist fyrir utan verslanir í Vestmannaeyjum.
mynd/óskar pétur friðriksson
Góðhjartaðir vinir Lúkas og Jóel söfnuðu fé til styrktar Göngum saman með því að leika tónlist fyrir utan verslanir í Vestmannaeyjum. mynd/óskar pétur friðriksson

„Þetta var svo óeigingjarnt og fallega gert að maður fékk nánast tár í augun. Maður hefði haldið að peyjar sem þessir mundu heldur vilja eyða peningunum sínum í eitthvað annað,“ segir Ólöf Jóhannsdóttir, meðlimur Göngum saman-samtakanna um peningagjöf frá Lúkasi Jarlssyni og Jóel Þóri Ómarssyni, tólf ára drengjum í Vestmannaeyjum.

Samtökin Göngum saman safnar fé til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.

Lúkas og Jarl færðu samtökunum peningagjöf að upphæð 30.000 krónur sem þeir höfðu safnað í um ár með því að leika tónlist fyrir fólk og gangandi.

Faðir Lúkasar, Jarl Sigurgeirsson, segir hugmyndina hafa alfarið verið drengjanna og er að eigin sögn mjög stoltur af syninum.

„Þeir ætluðu svo sem ekkert að fara að safna pening heldur vildu bara skapa smá jólastemningu síðustu jól. Þegar fólk fór svo að gefa þeim pening þá datt þeim í hug að það væri sniðugt að styrkja gott málefni. Þeir gripu svo tækifærið þegar Göngum saman-gangan fór fram hérna í Eyjum um síðustu helgi. Það sem mér þótti svo gaman var að það var enginn að halda þessu að þeim, þeim datt þetta algjörlega í hug sjálfum,“ segir Jarl.

Vinirnir, sem báðir leika á saxófón með skólalúðrasveit Vestmannaeyja, segjast vel geta hugsað sér að endurtaka leikinn fyrir næstu jól.

„Þetta var mjög gaman, skemmtilegast var samt að gefa peningana til Göngum saman. Mér sýndist líka fólk hafa gaman af tónlistinni,“ segir Lúkas Jarlsson.

Báðir drengirnir hyggjast halda áfram tónlistarnáminu í framtíðinni. „Okkur langar líka báðum að verða kokkar þegar við verðum stórir. Kannski opnum við saman veitingastað þar sem annar okkar spilar fyrir gestina á meðan hinn eldar,“ segja þeir Lúkas og Jóel að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.