Innlent

Gæsluvarðhaldsúrskurður Catalinu staðfestur

Catalinu Ncogo.
Catalinu Ncogo. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þar sem Catalinu Ncogo og starfskonu hennar er gert að sitja í gæsluvarðhaldi til föstudags. Konurnar eru grunaðar um aðild að mansali og að hafa haft milligöngu um vændi. Þetta er í annað sinn sem Catalina er handtekin vegna slíkra mála. Konurnar hafa setið í varðhaldi síðan á föstudag.

Fyrsti dómurinn féll í mansalsmáli á Íslandi á þriðjudag fyrir viku þegar Catalina var sýknuð af ákærum um mansal. Hún var hinsvegar dæmd fyrir að hafa haft viðurværi af vændi kvenna sem hún hélt úti á Hverfisgötunni.

Aðeins tveimur dögum eftir að dómurinn féll var Catalina handtekin að nýju grunuð um aðild að mansali og að hafa haft milligöngu um vændi, nú á Suðurgötu í Reykjavík. Stúlka um tvítugt, sem er af austurevrópsku bergi brotin en er íslenskur ríkisborgari, var einnig handtekin grunuð um aðild að mansali og hórmang.

Talið er að Catalina og samstarfskona hennar hafi gert út að minnsta kosti þrjár konur á Suðurgötunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×