Lífið

Íslensk stelpa opnar hönnunarbúð í Köben

Mums filibaba Guðbjörg Reykjalín hefur verið búsett í Danmörku frá tólf ára aldri. Hún rekur nú hönnunar­verslunina Mums Filibaba í miðbæ Kaupmannahafnar.
Mums filibaba Guðbjörg Reykjalín hefur verið búsett í Danmörku frá tólf ára aldri. Hún rekur nú hönnunar­verslunina Mums Filibaba í miðbæ Kaupmannahafnar.
Fatahönnuðurinn Guðbjörg Reykjalín hefur opnað hönnunar- og listabúð í rólegri hliðargötu í miðbæ Kaupmannahafnar. Verslunin ber nafnið Mums Filibaba og selur flíkur frá upprennandi hönnuðum, skemmtilega hluti fyrir heimilið, listaverk og ljósmyndir frá ýmsum listamönnum auk alls konar fylgihluta.

Guðbjörg hefur verið búsett í Danmörku frá tólf ára aldri og útskrifaðist sem fatahönnuður frá Håndarbejdets Fremmes Seminarium árið 2005. „Ég flutti til Kaupmannahafnar árið 1992 og kalla þetta mína heimaborg. Mamma mín flutti fyrir stuttu aftur heim til Íslands en ég reikna með að ég dvelji áfram hér í Danmörku. Mér finnst þó alltaf gott að koma heim til Íslands og hlaða batteríin, eins er hönnun mín undir miklum áhrifum frá íslenskri náttúru,“ segir Guðbjörg, en hún hannar flíkur undir nafninu Greykjalín.

Mums Filibaba opnaði formlega 9. september síðastliðinn og segist Guðbjörg hafa fengið góðar móttökur frá viðskiptavinum. Spurð út í nafnið á versluninni segir hún að það vera danskt orðtak. „Danir nota þetta yfir hluti sem þeim þykja afskaplega góðir, „mums“ þýðir í rauninni bara namm. Okkur fannst þetta tilvalið nafn á versluninni því það gefur til kynna að hér séu til sölu afskaplega góðar vörur,“ segir Guðbjörg.

Til stendur að opna vefverslun á slóðinni www.mumsfilibaba.dk, þar gefst fólki kostur á að skoða og kaupa þær vörur sem seldar eru í búðinni og fá sendar hingað heim til Íslands. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.