Innlent

Fleiri mótmæla Icesave en fjölmiðlafrumvarpinu

Icesave.
Icesave.

Alls hafa 33890 manns skrifað undir áskorun Indefence til forseta Íslands um synjun staðfestingar á Icesave lögum samkvæmt tilkynningu frá samtökunum.

Þetta eru fleiri einstaklingar en skrifuðu undir áskorun til forsetans um að synja lögum um fjölmiðla staðfestingar árið 2006. Hópurinn er ánægður með árangurinn en undirskriftasöfnunin hefur gengið vonum framar að þeirra mati þrátt fyrir meintar árásir óprúttinna aðila. Á einum degi, þann 11. desember, voru yfir 100 ógildar undirskriftir skráðar á vefinn á stuttum tíma.

Í yfirlýsingu frá Indefence hópnum segir: „Þessar ógildu undirskriftir komu frá mörgum IP tölum, en þ.á.m. voru IP tölur Hagstofunnar, Stjórnarráðsins, RÚV og Fréttablaðsins. InDefence hópurinn telur ekki að þessir aðilar standi á bak við árásina á undirskriftasöfnunina, enda var lítill hluti ógildra undirskrifta frá þeim. Hins vegar undraðist hópurinn þá tilviljun að viðkomandi undirskriftir hafi borist á þeim tíma sem árásin stóð yfir. Við viljum taka fram að í tilviki Fréttablaðsins var aðeins um eina ógilda undirskrift að ræða og það hefur komið skýring á henni frá blaðamanni sem var með rangri undirskrift að prufa kerfið. InDefence hópurinn tekur þá skýringu fullkomlega gilda."

Þá kemur einnig fram að áður en listinn verður afhentur verði hann sannprófaður og samkeyrður við þjóðskrá. Allar rangar skráningar verða þá fjarlægðar. Einnig verður sérstaklega greint frá því hve stór hluti undirskriftanna er frá fólki yngra en 18 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×