Innlent

Ráðherra meti sjálfur afsögn

Þingmenn Samfylkingarinnar segja fjármálaráðherra verða að meta það sjálfur hvort hann segi af sér eftir úrskurð umboðsmanns Alþingis um skipan héraðsdómara.fréttablaðið/stefán
Þingmenn Samfylkingarinnar segja fjármálaráðherra verða að meta það sjálfur hvort hann segi af sér eftir úrskurð umboðsmanns Alþingis um skipan héraðsdómara.fréttablaðið/stefán
Þingmenn Samfylkingarinnar segja úrskurð umboðsmanns Alþingis, sem gerði athugasemdir við skipan Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara, eðlilegan og búast hafi mátt við honum.

„Ég hef engar forsendur til að draga álitið í efa. Ég galt varhug við ráðningunni á sínum tíma og umboðsmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að hana hefði átt að vanda betur. Ég tek undir það,“ segir Lúðvík Bergvinsson þingflokksformaður. Hann segir Árna vera ráðherra Sjálfstæðisflokksins og möguleg afsögn hans verði ekki rædd í þingflokki Samfylkingarinnar.

Árni Páll Árnason segist ekki hafa lesið dóminn en „það hljómi eins og eitt og annað ámælisvert hafi verið við framkvæmdina“. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir niðurstöðu umboðsmanns eðlilega. „Þetta sýnir að það þarf að vanda vinnubrögð í svona ráðningum og þetta verður að skoða vandlega.“ Hvað afsögn varðar segir hún: „Hann verður að gera það upp við sína eigin samvisku.“

Helgi Hjörvar segir úrskurðinn ekki koma á óvart. „Málið var skólabókardæmi um vond vinnubrögð við embættisveitingu. Svona vinnubrögð þurfum við að uppræta í stjórnsýslunni við endurreisn samfélagsins, ekki síst til að endurvekja samstöðu og traust milli almennings og stjórnvalda. Ráðherrann hlýtur sjálfur að svara fyrir það hvernig hann hyggst bregðast við álitinu en hann hlýtur að taka það alvarlega.“- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×