Innlent

Töluverður áhugi á kosningunum erlendis

Erlendir fjölmiðlar sýna kosningunum töluverðan áhuga. Stórar fréttaveitur á borð við Reuters og Bloomberg fjalla um málið í dag sem og margir aðrir fjölmiðlar á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Þá hefur Financial Times sýnt kosningunum mikinn áhuga en þar eru nú fjórar fréttir af þeim á vefsíðu blaðsins. FT vitnar m.a. í Ólaf Harðarsson prófessor sem segir að nokkuð verulega óvænt sé um það bil að gerast í stjórnmálasögu Íslands. Ef skoðanakannanir gefi rétta mynd af niðurstöðunni sé um að ræða stærstu vinstrisveiflu sem sést hafi frá upphafi vega.

Börsen í Danmörku er með umfjöllun á vefsíðu sinni þar sem m.a. er fjallað um komu Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra á kjörstað í Hagaskóla í sólskini og blíðuveðri. Vitnað er í ráðherrann um að hún vilji sem fyrst sækja um aðild að Evrópubandalaginu.

FT vitnar í Streingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra um ESB aðild og hefur eftir ráðherranum að of mikill þrýstingur af hálfu Samfylkingarinnar á það mál geti sett stjórnarsamstarfið í hættu.

Stærsta dagblað Noregs, Verdens Gang, eyðir töluverðu púðri í íslensku kosningarnar með áherslu á tvennt. Annarsvegar að allt stefni í sögulegan vinstri sigur og hinsvegar að ESB aðild hafi verið eitt af höfuðmálum kosningabaráttunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×