Innlent

Ólína fær ekkert að vita um skuldameðferð sjávarútvegsfyrirtækja

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir. Mynd/Pjetur

Ekkert verður gefið upp um skuldameðferð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í íslensku bönkunum af hálfu efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur þingkonu Samfylkingarinnar.

Ólína vildi vita hve mikið af skuldum útgerðarfyrirtækja varð eftir í þrotabúum gömlu bankanna þriggja, sundurliðað eftir bönkum. Ólína spurði einnig hve stór hluti skulda útgerðarfyrirtækja fluttist yfir í nýju bankana þrjá, sundurliðað eftir bönkum og hvaða verklagsreglur voru viðhafðar við mat á yfirfærslu skulda sjávarútvegsfyrirtækja úr gömlu bönkunum í þá nýju.

Þá spurði þingmaðurinn hvort lán sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið afskrifuð eftir bankahrunið, og ef svo er, í hve miklum mæli. Og að síðustu var spurt hvort lán sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið fryst eftir bankahrunið, „og ef svo er hvaða upphæðir er um að ræða og til hve langs tíma?"

Í svarinu er bent á að bankarnir hafi verið almenn hlutafélög á markaði þar til í október 2008. „Þó svo að Fjármálaeftirlitið, á grundvelli laga nr. 125/2008, hafi gripið inn í rekstur bankanna voru þeir eftir sem áður viðskiptabankar á samkeppnismarkaði. Viðskiptabankar lúta reglum laga um fjármálafyrirtæki og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og reglum settum á grundvelli þeirra, m.a. um meðferð trúnaðarupplýsinga. NBI hf., Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. eru einnig hlutafélög og þótt ríkissjóður eigi, eða kunni að eignast, hlutabréf í einhverjum þeirra, eða öllum, lúta þeir lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fer fjármálaráðherra með hluti ríkissjóðs í þessum viðskiptabönkum."

Þá segir að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi ekki undir höndum neinar upplýsingar um starfsemi einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði „né hefur það undir höndum upplýsingar um skuldir einstakra viðskiptamanna bankanna. Eftirlit með starfsemi á fjármálamarkaði er í höndum Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, utan lausafjáreftirlit sem Seðlabanki Íslands hefur á sinni könnu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×