Innlent

Dæmdur fyrir árás í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Árásin átti sér stað í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Árásin átti sér stað í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi Mynd/ GVA

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag 17 ára karlmann í eins mánaðar fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Árásin átti sér stað miðvikudaginn 18. febrúar á þessu ári í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Maðurinn réðist á skólafélaga sinn og sló hann ítrekað með grjóthnullungi í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli og bólgu vinstra megin á hvirfli og langvarandi höfuðverk næstu vikur á eftir.

Í áverkavottorði kom fram að fórnarlambið hafi verið að ganga með félaga sínum fyrir utan Vallaskóla á Selfossi sama dag og árásin var gerð. Ákærði hafi gengið að honum án ástæðu og farið að koma við hann. Brotaþoli hafi orðið fúll yfir þessu og sagt eitthvað við ákærða sem hafi svarað á pólsku. Klukkutíma síðar hafi fórnarlambið verið statt á 3. hæð Fjölbrautaskólans með einum vini sínum. Ákærði hafi þá komið með tveimur vinum sínum og sest við hliðina á brotaþola. Ákærði hafi farið í burtu og komið aftur og byrjað að lemja hann með lófastórum steini í höfuðið vinstra megin, átta til tíu sinnum.

Af skýrslu ákærða fyrir lögreglu kom fram að ákærði hafi talið sig vera áreittan og hafi það verið ástæða árásarinnar. Verður það þó ekki metið ákærða til refsilækkunar.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir lögreglu og dómi. Þá var ákærði sautján ára þegar árásin átti sér stað. Þá hefur ákærða ekki verið gerð refsing áður. Hins vegar var um einbeittan ásetning ákærða að ræða og er ekkert sem má reikna honum til refsilækkunar utan þess sem að ofan segir.

Ákærði var dæmdur í fangelsi í einn mánuð en með vísan til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir lögreglu og dómi svo og ungs aldurs hans þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×