Innlent

Konur í ánauð neyddar til að skrifa upp á skuldaviðurkenningar

Karen Kjartansdóttir skrifar
Dæmi eru um að erlendum konum sem haldið hefur verið í ánauð hér á landi hafi verið í svo mikilli einangrun að þær vita ekki hvar þær búa, enda þótt þær hafi dvalið hér árum saman. Þá hafa konur verið neyddar til að skrifa upp á skuldaviðurkenningar.

Ný rannsókn Kvennaathvarfsins sem greint var frá um helgina sýnir að konur sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins eru varnarlausar fyrir ofbeldi maka sinna. Ástæðan er sú að framlenging dvalarleyfis kvennanna er oft í höndum karlanna í fjögur ár eftir komu. Dæmi eru um að menn hafi hótað konum sínum brottrekstri verði þær ekki að vilja þeirra í einu og öllu, sumir hafi jafnvel skipt út konum eftir hentugleika.

Ákvæði í lögum sem á að nýtast þessum konum gerir það ekki nægilega vel sakir þess hve konurnar eru oft einangraðar eða eins og segir um aðstæður einnar í rannsóknni.

„Kona kom í lögreglufylgd í Kvennaathvarf. Hún hafði búið á Íslandi í nokkur ár en gat ekki gefið upp heimilisfang. Hún vissi ekki hvar hún bjó enda hafði maður hennar haldið henni einangraðri allt frá því hún kom til landsins."

Misnotkunin sem konurnar hafa orðið fyrir er af alls kyns toga. Eða eins og segir um aðstæður einnar konunnar í rannsóknni:

„Konan er stórskuldug vegna skulda kærastans en hún þorir ekki annað en að skrifa upp á skuldaviðurkenningar fyrir hann því hann hótar að gera börnum þeirra mein ef hún neitar."

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdstýra Kvennaathvarfsins segir aðeins brot mála sem þessa komast á yfirborðið. Fólk verði að vera vakandi fyrir aðstæðum kvenna sem kunna að búa við ofbeldi, ekki síst erlendra kvenna sem hafi oft minna tengslanet heldur en þær íslensku.




Tengdar fréttir

Ofbeldismenn skipta konum út eftir hentugleika

Dæmi eru um að ofbeldismenn hér á landi velji sér kerfisbundið eiginkonur frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og skipti þeim út eftir hentugleika. Þetta sýna gögn Kvennaathvarfsins en konur sem koma hingað frá löndum utan EES eru oft háðar maka um framlengingu dvalarleyfis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×