Innlent

RÚV rannsakar ekki bullundirskriftir

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins, segir að ljósi þess að þrjár eða fjórar „bullundirskriftir" á undirskriftalista Indefence gegn Icesave frumvarpinu komu frá IP-tölum stofnunarinnar sjái RÚV ekki ástæðu til að aðhafast í málinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi menntamálaráðherra vill að ríkisstjórnin láti rannsaka ógildar undirskriftir á lista Indefence sem rekja megi til opinberra stofnana. „Það er óeðlilegt í jafn mikilvægu máli að svona undirskriftir séu raktar til RÚV eða Stjórnarráðsins, hvort sem það var gert í einkapósti eða ekki," sagði Þorgerður í umræðum á Alþingi í gær. Hún vakti auk þess athygli á því að ógildar undirskriftir hefðu verið raktar til Fréttablaðsins.

Vegna ummæla Þorgerðar og kröfu leiðarahöfundar Morgunblaðsins eftir tafarlausri opinberri lögreglurannsókn á málinu sendi Bjarni frá sér yfirlýsingu í dag. Í henni kemur fram að Ríkisútvarpið hafi spurt skipuleggjendur undirskriftasöfnunarinnar hversu margar „bullundirskriftir" hefðu komið frá IP-tölum RÚV og svarið hafi verið þrjár eða fjórar.

„Í ljósi þessara upplýsinga sér RÚV ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu," segir Bjarni.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að forsvarsmenn Indefence hafi borið til baka ásakanir um að starfsmenn Fréttablaðsins hafi verið meðal þeirra sem staðið hafi að árás á undirskriftasöfnun hópsins.


Tengdar fréttir

Indefence ber ásökun til baka

Forsvarsmenn Indefence-hópsins hafa borið til baka ásakanir um að starfsmenn Fréttablaðsins hafi verið meðal þeirra sem staðið hafi að árás á undirskriftasöfnun hópsins á föstudag.

Vill rannsókn á undirskriftum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður vill að ríkisstjórnin láti rannsaka ógildar undirskriftir á lista Indefence sem rekja megi til opinberra stofnana. „Það er óeðlilegt í jafn mikilvægu máli að svona undirskriftir séu raktar til RÚV eða Stjórnarráðsins, hvort sem það var gert í einkapósti eða ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×