Lífið

Hljómsveitir fá borgað í dilkum

Grímur Atlason. Sveitarstjórinn í Búðardal stendur fyrir rokkhátíðinni Slátur.
Grímur Atlason. Sveitarstjórinn í Búðardal stendur fyrir rokkhátíðinni Slátur.

Þær hljómsveitir sem taka þátt í rokk­hátíðinni Slátur í Reiðhöllinni í Búðardal fá greitt fyrir spilamennskuna í dilkum. Hátíðin, sem verður haldin 23. október, er liður í haustfagnaði sauðfjárbænda.

„Það hefur enginn neitað og allir vilja koma. Það finnst öllum stórkostlegt að fá borgað í dilkum,“ segir Grímur Atlason, sveitarstjóri í Búðardal, sem skipuleggur hátíðina. „Menn fá sitt lítið af hverju af rollunni. Svið, bjúgu, læri, hrygg og súpukjöt, þannig að menn koma nestaðir heim.“ Grímur, sem er vanur tónleikahaldari, segist vera hættur að borga hljómsveitum í evrum og því hafi þessi leið verið valin. „Þetta er miklu stöndugra. Afurðaverð hefur farið lækkandi til bænda. Það er hagkvæmt að borga í dilkakjöti en kannski ekki fyrir bændurna sjálfa.“

Hljómsveitirnar sem troða upp á hátíðinni eru ekki af verri endanum, Retro Stefson, FM Belfast, Agent Fresco, Reykjavík!, Dr. Gunni, Rass og Grjóthrun, þar sem Grímur spilar einmitt á bassann. Hann er ekki í neinum vafa um að bændurnir kunni vel að meta reykvíska rokkið. „Þarna verður stofnfundur ungra bænda á Íslandi í Dölunum. Bændur eru miklir rokkarar, enda er Óttarr Proppé [liðsmaður Rass og Dr. Spock] hálfgerður Dalamaður. Svona verða menn eftir að hafa verið í Dölunum.“

Meðal annarra skemmtiatriða í haustfagnaði sauðfjárbænda eru Íslandsmeistaramótið í rúningi, hrútaþukl og fótboltamót þannig að menn hafa svo sannarlega úr nægu að moða. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.