Innlent

Stórslasaður eftir líkamsárás

Grettisgata 43 Þar átti fyrri líkams-árásin sér stað.
Grettisgata 43 Þar átti fyrri líkams-árásin sér stað.

Karlmaður á þrítugsaldri liggur stórslasaður á Landspítalanum eftir líkamsárás eða slagsmál í Smáíbúðahverfinu. Maðurinn gekkst undir aðgerð í gær. Hann var ekki talinn í lífshættu, en er meðal annars mikið laskaður í andliti.

Árásin í Smáíbúðahverfinu átti sér stað um kvöldmatarleytið á sunnudag. Fimm menn voru handteknir. Þeir eru allir búsettir í Smáíbúðahverfinu. Fjórum var sleppt eftir yfirheyrslur í gær, en gerð krafa um gæsluvarðhald yfir þeim fimmta.

Sá sem slasaðist nú er á þrítugsaldri. Hann var einn þeirra sem sátu í gæsluvarðhaldi eftir að ungur maður fannst mikið meiddur eftir meinta líkamsárás á Grettisgötu í júní. Sá sem fyrir henni varð slasaðist mjög mikið og hefur enn ekki reynst unnt að yfirheyra hann. Einn maður situr enn í gæsluvarðhaldi vegna þeirrar líkamsárásar. Hann leigir herbergið á Grettisgötunni þar sem slasaði maðurinn fannst uppi í rúmi.

Í herberginu fannst meðal annars blóðugt júdó- eða karatebelti í vaskinum. Í ruslatunnu fundust blóðug rúmföt og blóðugir inniskór undir laki.

Óvíst er að bein tengsl séu milli þessara tveggja árásarmála, sem Litháar áttu hlut að í báðum tilvikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×