Innlent

Ungir Framsóknarmenn í Kópavogi: Vilja að Gunnar afsali sér biðlaunarétti

Gunnar Ingi Birgisson.
Gunnar Ingi Birgisson.
Ungir Framsóknarmenn í Kópavogi hvetja Gunnar I. Birgisson til að segja af sér sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt hvetur félagið hann til þess að afsala sér biðlaunarétti bæjarstjóra og því fé verði varið til aðstoðar ungu barnafólki í Kópavogi með lækkun á leikskólagjöldum eða öðrum gjöldum.

Þetta kemur fram í áskorun sem Ungir Framsóknarmenn í Kópavogi senda Gunnari I. Birgissyni í dag. Í áskoruninni segir að síðustu vikur hafi verið stormasamar í samstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Tvö hneyklismál hafi komið upp með skömmum fyrirvara, annars vegar viðskipti bæjarins við Frjálsa Miðlun ehf., sem er fyrirtæki í eigu dótturs Gunnars og hins vegar mál lífeyrissjóðs starfsmanna kópavogs (LSK) þar sem Gunnar beri höfuð ábyrgð, enda stjórnarformaður sjóðsins. Þá segir að trúnaðarbrestur Gunnars og framkvæmdastjóra sjóðsins við meðstjórnendur sé slíkur að fáheyrt sé að menn komist upp með slík vinnubrögð.

„Auk þessa á ennþá á eftir að rannsaka mál Klæðningar, þar sem skýr tengsl eru á milli Gunnars og Klæðningar og viljum við hvetja bæjarráð til að fara fram á óháða rannsókn á þeim málum. Í ljósi þess er ekki að undra þó að framsóknarmenn vilji almennt ekki samstarf í óbreyttri mynd. Þess ber þó að hafa í huga að þessir tveir flokkar hafa átt í góðu samstarfi í 19 ár. Í gær samþykkti svo fulltrúaráð Framsóknarflokksins að reyna að bjarga samstarfinu með neðangreindum skilyrðum.

Skilyrði framsóknarmanna fyrir áframhaldandi meirihlutasamstarfi:

Fundur fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Kópavogi haldinn 22. júní 2009 samþykkti að halda áfram meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðisflokknum að gefnum eftirfarandi skilyrðum:

1) Sjálfstæðismenn tilnefni nýjan bæjarstjóra úr röðum bæjarfulltrúa sem taki við starfi bæjarstjóra og gegni því út kjörtímabilið.

2) Það að Gunnar I. Birgisson segi sig frá starfi bæjarfulltrúa meðan á lögreglurannsókn stendur er í fullri sátt við Framsóknarfélögin í Kópavogi en ekki að þeirra kröfu. Kjósi Gunnar I. Birgisson að snúa aftur sem bæjarfulltrúi þarf að semja um samstarf flokkana að nýju.

3) Þessi ákvæði taki gildi miðvikudaginn 24. júní 2009."

Í síðustu viku hvöttum við félaga okkar til að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Það var gert í þeirri trú að sjálfstæðismenn myndu aldrei setja Gunnar af sem bæjarstjóra. Annað hefur nú komið á daginn sem gefur von um að samstarfið geti haldið.

Ungir Framsóknarmenn í Kópavogi vilja því hvetja Gunnar I. Birgisson til að sjá sóma sinn í því að segja af sér sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt viljum við hvetja hann til að afsala sér biðlaunarétti bæjarstjóra og því fé verði varið til aðstoðar ungu barnafólki í Kópavogi með lækkun á leikskólagjöldum eða öðrum gjöldum.

Slík aðgerð myndi auka traust á áframhaldandi samstarfi flokkanna og koma á friði í bæjarpólitíkinni. Verði hann ekki af þessari áskorun er vandséð með áframhaldandi stuðning okkar við samstarfið miðað við þau orð sem hafa komið frá bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna þar sem Gunnsteinn er ósáttur við tillögu Framsóknar," segir í áskoruninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×