Innlent

Evrópusambandið eða hvalveiðar

Guðjón Helgason. skrifar
Hvalveiðar.
Hvalveiðar.

Svo gæti farið að Ísland yrði að velja milli Evrópusambandsins og hvalveiða yrði ákveðið að sækja um aðild að ESB. Dýraverndunarsamtök ætla að beita sér fyrir því að viðsemjendur Íslendinga standi hart á Evrópureglum sem banni aðildarlöndum að veiða hvali.

Fulltrúar hvalverndarsinna á ársþingi Alþjóða hvalveiðiráðsins í Portúgal telja nær víst að ef Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu verði krafan sú að Íslendingar hætti að veiða hvali.

Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóð dýraverndunarsjóðsins eða International Fund for Animal Welfare, segir afstöðu ESB gegn halveiðum skýra. Hún hafi komið ítrekað fram í samþykktu framkvæmdastjórnar sambandsins og síðan í tilskipun um verndun villtra dýra og búsvæða þeirra. Einnig hafi ESB stutt CITES-samninguinn um stjórnun og eftirlit á alþjóðlegri verslun með tegundir plantna og dýra sem taldar eru í útrýmingarhættu.

"Og þegar þetta er allt saman tekið saman þá er ekki annað séð en að Evrópusambandið sé alveg með það á hreinu að það vilji ekki sjá hvalveiðar," segir Sigursteinn Másson, talsmaður IFAW á Íslandi.

Umhverfisráðherra Portúgals sagði í viðtali við BBC í gær að vafalítið væri hægt að semja um þetta en Sigursteinn á ekki von á að undanþágur fáist. Einu undanþágur hafi Færeyingar og Grænlendingar fengið vegna frumbyggjaveiða. Hann á von á að samtökin sín beiti sér komi til aðildarviðræðna.

"Það er pólitísk afstaða Evrópusambandsins sem líka kemur fram í tilskipunum sambandsins að það eigi ekki að veiða hvali heldur vernda þá. Við munum að sjálfsögðu halda mönnum við efnið í þessu sambandi," segir Sigursteinn.

Sú staða gæti því komið upp að Íslendingar yrðu að velja á milli Evrópusambandsaðildar og hvalveiða. Aðspurður segir Sigursteinn:

"Ég held það. Ég held að það þurfi að velja á milli."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×