Innlent

Mest skorið niður á Reykjavíkursvæðinu

Breikkanir og endurbætur á umferðaræðum í kringum Reykjavík verða harðast fyrir niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar á sviði vegagerðar.

Öll frekari útboð á sviði vegagerðar hafa verið stöðvuð. Skera á þrjá og hálfan milljarð króna af nýframkvæmdum á þessu ári og yfir 8 milljarða króna á því næsta.

Mestur sparnaður næst á höfuðborgarsvæðinu, að mati Vegagerðarinnar, sem sér fram á að hætta við breikkun Suðurlandsvegar við Grafarholt, og Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ. Útboð Arnarnesvegar hefur verið stöðvað og óvíst er hvort ráðist verði í umdeildan Álftanesveg. Gamla kosningaloforðið Suðurstrandarvegur lendir undir hnífnum, einnig tvöföldun Suðurlandsvegar við Sandskeið, Húnavallavegur, Skíðadalsvegur og Hörgárdalsvegur, en nokkur verk sleppa, þar sem búið var að gera verksamninga; þar á meðal Hvítárbrú við Flúðir, Vopnafjarðarvegur, Raufarhafnarleið og Vestfjarðavegur við Vatnsfjörð.

Skorið er niður aðeins fjórum mánuðum eftir að ríkisstjórnin fyrir kosningar boðaði framkvæmdaátak gegn atvinnuleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×