Innlent

Veðurfréttakona fékk bætur vegna eineltis

Ásdís Auðunsdóttir fékk hálfa milljón í bætur frá íslenska ríkinu vegna eineltis sem hún varð fyrir á vinnustað sínum, Veðurstofu Íslands.
Ásdís Auðunsdóttir fékk hálfa milljón í bætur frá íslenska ríkinu vegna eineltis sem hún varð fyrir á vinnustað sínum, Veðurstofu Íslands.

Íslenska ríkinu var í dag gert að greiða Ásdísi Auðunsdóttur hálfa milljón króna í miskabætur vegna eineltis á vinnustað. Ásdís er landsfræg veðurfréttakona en henni misbauð framkoma sviðsstjóra síns, Þórönnu Pálsdóttur, og kvartaði því við veðurstofustjóra vegna eineltis í sinn garð.

Veðurstofustjóri, Magnús Jónsson, fékk kvörtun Ásdísar til meðferðar og fékk hann sérfræðing til þess að rannsaka málið og skilaði hún skýrslu um athuganir sínar í júní 2007, en henni hafði verið falið verkið í mars 2007.

Skýrslunni var skilað til Veðurstofu Íslands, en Ásdís fékk ekki eintak af skýrslunni fyrr en hún hafði gengið eftir því með bréfaskriftum.

Í niðurstöðum sérfræðingsins kemur m.a. fram:

,,Að mati undirritaðrar fellur framkoma X (innsk. Þórönnu Pálsdóttur) í garð A (innsk. Ásdísar Auðunsdóttur) undir skilgreiningu á einelti á vinnustað. Um var að ræða ferli endurtekinnar hegðunar á formi athugasemda og athafna X sem að mati undirritaðrar eru til þess fallnar að hafa valdið niðurlægingu, gert lítið úr, móðgað, sært, mismunað, ógnað, eða valdið vanlíðan A á því tímabili sem er til skoðunar í þessari skýrslu.

Mat þetta er byggt á gögnum, lýsingum og viðtölum við A, nokkra stjórnendur, starfsmenn og trúnaðarmenn á VÍ."

Í dómi héraðsdóms kemur fram að mat hans sé að þessi síðbúnu viðbrögð Magnúsar við umleitan Ásdísar eftir aðstoð vegna eineltis sem sýnt hefur verið fram á að viðgekkst á vinnustað hennar, hafi falið í sér vanrækslu af hans hálfu og verið til þess fallin að valda Ásdísi vanlíðan. Fól þetta saknæma athafnaleysi Magnúsar í sér meingerð gegn persónu Ásdísar, sem íslenska ríkið ber ábyrgð á. Því er það dæmt til greiðslu miskabóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×