Lífið

Heimildamyndir í Nýló

kvikmyndir Kyrrmynd úr sögu um barn.
kvikmyndir Kyrrmynd úr sögu um barn.

Nú hefst önnur sería heimildarmynda í Nýlistasafninu. Sýndar verða fjórar myndir frá ýmsum löndum sem allar hafa það sameiginlegt að fjalla um ímynd og persónusköpun. Við fylgjumst með því hvað gerist er barn sér spegilmynd sína í fyrsta sinn, fangelsisheimsókn ungrar dóttur til móður sinnar og sögu manns sem snýr aftur á heimaslóðir verandi síðasta manneskjan úr þorpinu. Myndirnar velta upp spurningum um það hversu nálægt viðfangsefni sínu kvikmyndagerðarmaðurinn geti gengið og hversu nálægt raunveruleikanum og reynsluheimi persóna hann geti komist.

Í kvöld kl. 20 verða sýndar tvær myndir.

Fyrsta myndin sem sýnd verður heitir Svyato, sem þýðir hamingjusamur, tær, kátur. Svyato er líka gælunafn yngsta sonar rússneska heimildarmyndagerðarmannsins Viktors Kossakovsky. Hér fylgjumst við með því hvað gerist þegar Svyato horfir í fyrsta skipti í spegill 2ja ára gamall og skilur smám saman muninn á sér og spegilmynd sinni. Myndin hefur unnið margföld verðlaun á virtustu heimildarmyndahátíðum heims, og Kossakovsky er einn af virtustu og mikilvægustu heimildarkvikmyndagerðarmönnum í heiminum í dag. Myndin er frá 2005 og er 33 mínútur.

Jafnframt verður sýnd myndin Alone eftir Audrius Stonys þar sem ung stúlka heimsækir móður sína í fangelsi en myndin sýnir ómældan einmanaleika manneskjunnar. Stonys er þekktur fyrir ljóðrænar heimildarmyndir, hann er eitt af helstu nöfnunum úr post-sovét skólanum og vinnur með tökumanni Tarkovskys. Hann hefur einnig unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín. Myndin er 16 mínútur og er frá 2001.

Umsjón með röðinni hefur myndlistar- og heimildarmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg. Nýlistasafnið er á Laugavegi 26 (gengið inn Grettisgötumegin) og er frítt inn. Frekari upplýsingar um myndirnar sem verða sýndar í júní er að finna á vefsíðu safnsins, www.nylo.is- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.