Lífið

Féll fyrir viðfangsefninu

gylfi og sólmundur Bókin kemur væntanlega út fyrir jól en þó ekki fyrr en báðir eru sáttir enda mörg fylleríin og hjónaböndin sem þarf að dekka.Fréttablaðið/anton
gylfi og sólmundur Bókin kemur væntanlega út fyrir jól en þó ekki fyrr en báðir eru sáttir enda mörg fylleríin og hjónaböndin sem þarf að dekka.Fréttablaðið/anton

„Þetta er skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér,“ segir Sólmundur Hólm Sólmundarson, blaðamaður og eftirherma, sem nú fæst við að rita endurminningar Gylfa Ægissonar tón- og myndlistarmanns.

Sólmundur, sem vann eftirminnilega eftirhermukeppni sem Logi Bergmann gekkst fyrir á sínum tíma, hefur fengist við að koma á skemmtunum og hermir eftir ýmsum:

„Ég er með helling. Gömlu sem hafa fylgt mér lengi eru Pálmi [Gunnarsson], Olsen-bræður, Shaggy ... gullin mín. Sé reyndar fram á að Sigmundur Davíð verði einn af þeim. Svo er það Jónas Kristjánsson en ég hermi nú helst eftir honum fyrir kollegana. Já, og svo auðvitað Gylfi – sem er algert eftirlæti mitt og áhorfenda.“

Sólmundur, sem hefur á sínum blaðamannsferli ritað ýmsar fréttir af Gylfa („já, það hefur aldrei þurft að pína mig til að hringja í hann,“) segir þetta verkefni hafa orðið nánast fyrir tilviljun.

„Gylfi hringdi í mig út af öðru og ég fór að spyrja hann hvort hann væri ekki farinn að skrifa ævisögu sína. Hann sagði svo ekki vera en spurði hvort ég vildi bara ekki taka þetta að mér. Ég hélt það nú enda mikill aðdáandi Gylfa eins og flestir sem einhver samskipti við hann eiga.“

Þeir félagar hafa nú hist margoft og talað mikið saman í síma. Sólmundur hefur stúderað Gylfa úr fjarlægð en nú, eftir að svo mikil kynni tókust með þeim félögum, segir Sólmundur eitt og annað hafa komið sér á óvart.

„Gylfi er miklu dýpri persóna en ég hélt hann væri. Hann er ekki bara sjúddírarírei þó ekkert orð lýsi manninum betur. Hann er eitt stórt sjúddírarírei.“

Sólmundur vonar að bókin verði tilbúin í haust að því gefnu að þeir séu báðir sáttir. „Það þarf að gera þetta vel enda mörg fyllerí og hjónabönd sem þarf að dekka,“ segir Sólmundur og er þakklátur Gylfa fyrir að treysta sér fyrir þessu mikla og þarfa verki. Enginn útgefandi er enn inni í myndinni en Sólmundur býst við að þeir stökkvi á þennan gullmola.

„Gylfi selur, við sjáum það bara best á disknum sem Papar voru að gefa út með lögum hans. Annars er ég ekki í þessu út af peningunum.

Samveran með Gylfa er ómetanleg og svo kem ég til með að ná honum þúsund sinnum betur eftir þetta.“ Verkefnið leggst vel í sjálfan Gylfa sem og nafn bókahöfundar:

„Í sól og sumaryl. Þetta verður fínt samstarf. Ég legg öll spil á borðið og hlífi mér hvergi ekki frekar en vanalega. En ég vil ekki særa neinn. Ef við fáum eitthvað fyrir bókina vil ég ekki eyða því öllu í lögfræðinga. En þær eru margar sögurnar,“ segir Gylfi Ægisson.jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.