Lífið

Í fótspor Bítlanna og Zeppelin

wayne coyne Embryonic er fyrsta tvöfalda plata hljómsveitarinnar The Flaming Lips.
wayne coyne Embryonic er fyrsta tvöfalda plata hljómsveitarinnar The Flaming Lips.

Bandaríska hljómsveitin The Flaming Lips hefur löngum verið talin með þeim skrítnari í tónlistarbransanum. Sýrukenndur og tilraunakenndur poppbræðingurinn hefur oft á tíðum hitt í mark hjá gagnrýnendum, sérstaklega með plötunum The Soft Bulletin og Yoshimi Battles the Pink Robots, og hljómsveitin á sér dyggan aðdáendahóp innan indí-geirans.

Tólfta hljóðversplata The Flaming Lips, hin tvöfalda Embryonic, kom út fyrir skömmu og hefur fengið góða dóma hjá gagnrýnendum. Hún er sú fyrsta frá sveitinni í þrjú ár, síðan At War With the Mystics kom út við heldur misjafnar undirtektir.

Flest laganna á Embryonic urðu til þegar þeir félagar spiluðu af fingrum fram á þáverandi heimili trommarans Stevens Drozd. „Í byrjun voru þessi djammlög oft ekkert sérlega spennandi. En stundum komu upp augnablik sem voru stórskrítin og á þeim byggðum við þessa plötu,“ sagði söngvarinn Wayne Coyne. Hann bætir við að á plötunni sé vaðið úr einu í annað, líkt og á frægum tvöföldum plötum Bítlanna og Led Zeppelin. „Meðal uppáhaldsplatnanna eru Hvíta albúmið, Physical Graffiti og meira að segja lengri plöturnar frá The Clash. Ástæðan er að hluta til sú að þar er enginn einn stíll og einn heildarsvipur var ekki aðalmálið. Það var einhvern veginn allt látið flakka,“ sagði Coyne.

Á meðal þeirra sem aðstoða Coyne og félaga á nýju plötunni er hljómsveitin MGMT, sem spilar í laginu Worm Mountain, og Karen O, söngkona Yeah Yeah Yeahs, sem syngur í lögunum I Can Be a Frog og Watching the Planets.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.