Lífið

Útrásarvíkingum boðið í bíó

Helgi Felixsson
Helgi Felixsson

Svo gæti farið að Davíð Oddsson, Geir H. Haarde, Jón Ásgeir Jóhannesson, Bjarni Ármansson og Björgólfur Thor sætu allir saman í stóra sal Háskólabíós þriðjudaginn 6.október þegar heimildarmynd Helga Felixsonar, Guð Blessi Ísland, verður frumsýnd.

Allir þessir einstaklingar, að Davíð undanskildum, segja sína sögu í myndinni en hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu. Leikstjórinn hefur boðið umræddum einstaklingum á sýninguna en auk þess fá ríkisstjórnin og alþingismenn þjóðarinnar boðskort. Sætin verða tölusett og nöfn viðkomandi límd á sætin þannig að engin ætti að velkjast í vafa um hver eigi að sitja hvar.

Helgi kveðst reyndar hafa boðið Davíð þátttöku í myndinni, ekki hafi annað verið hægt. „Ég talaði við hann í síma, hann var allur af vilja gerður en kvaðst ekki geta tekið þátt þar sem hann væri bundinn þagnarskyldu og mætti því ekki segja neitt,“ segir Helgi og útskýrir að þrátt fyrir að eiginlegt viðtal við Davíð sé ekki fyrir hendi þá svífi andi hans yfir vötnum allan tímann. „Nærvera hans er svo sterk og Davíð er eiginlega eins og Guð almáttugur sem hvílir á manni og veitir manni blessun án þess að maður sé að biðja neitt sérstaklega um það.“

Helgi er nú að skila myndinni af sér og gera hana reiðubúna til sýningar. Hann kveðst trúa því að þetta verði söguleg sýning. „Sennilega sögulegasta kvikmyndasýning á Íslandi,“ grínast leikstjórinn með. Þegar talið verður ögn alvarlegra viðurkennir Helgi að hann hefði aldrei trúað því hversu mikill áhuginn á myndinni væri.

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég er búinn að koma mér útí, það er eins gott að standa sig og halda ró sinni,“ segir Helgi og viðurkennir að kannski hafi það skipt sköpum að hann sé búsettur í Svíþjóð en ekki á Íslandi. „Annars hefði maður kannski ekki þorað að fara útí þetta.“ Hann hefur verið bókaður í fjölda viðtala við erlendar fréttastöðvar, meðal annars við breska ríkissjónvarpið BBC en það verður sent til yfir 200 landa í þessari viku. „Nú er bara tími sannleikans að renna upp.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.