Lífið

Bjórkippuveðmál í uppnámi

Kom fyrstur INN sem Ceres 4 Gói telur sig eiga inni bjórkippu.
Kom fyrstur INN sem Ceres 4 Gói telur sig eiga inni bjórkippu.

Félagarnir Jói og Gói léku báðir í fyrsta Áramótaskaupinu sínu á dögunum. Þeir veðjuðu um hvor myndi birtast fyrstur. Erfiðlega gengur að útkljá veðmálið.

„Ég er ekki búinn að fá kippuna, nei, Jói er með eitthvað vesen,“ segir Guðjón Davíð Karlsson, Gói, en eins og kom fram í Fréttablaðinu í síðustu viku veðjuðu hann og Jóhannes Haukur Jóhannesson, Jói, um það hvor myndi birtist fyrst í Skaupinu. Báðir voru að leika í sínu fyrsta Skaupi og bjórkippa var lögð undir.

„Þetta var reyndar bara spurning um nokkrar sekúndur, en samt,“ heldur Gói áfram, þungur á brún. „Hann kom fast á hæla mér en það sáu allir að ég birtist fyrstur. Mér finnst skrýtið að hann geti ekki staðið við veðmálið, þetta var jú hans hugmynd. En hann áttar sig eflaust á endanum, enda heiðarlegur inn við beinið.“

Gói var í hlutverki Ceres 4 úr Merzedes Club í upphafsatriðinu og Jói lék Gazman. „Ég krafðist þess að horfa á Skaupið einn heima með konu og syni,“ segir Gói. „Fannst kjánalegt að vera við hliðina á einhverju fólki sem væri að hlæja bara af því að ég væri við hliðina á því. Svo vildi ég geta hlaupið beint upp í rúm til að gráta ef þetta væri eitthvað ömurlegt. Þess gerðist náttúrulega ekki þörf.“

Þeir Jói og Gói hafa fylgst að lengi í leiklistinni og leika nú báðir í Fló á skinni og Fólkinu í blokkinu hjá Borgarleikhúsinu. „Svo verðum við báðir í Sound of Music sem á að frumsýna í maí. Æfingar hefjast í febrúar. Ég leik nasistastrák og fæ að syngja eitt lag, en Jói leikur sjálfan Van Trapp. Hann þarf alltaf að vera aðal.“

Og Gói telur að kippan komi seint eða aldrei. „Það var búið að vera draumur í þrjú ár að fá að komast í Skaupið en nú er eiginlega kominn stærri draumur, sem er sá að vera boðið aftur. Svo ég á ekkert endilega von á að fá þessa kippu.

Ég held að næsta veðmál okkar Jóa verði um það hvorum verði boðið fyrr að leika aftur í Skaupinu. Double or nothing."

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.