Lífið

Tólf ára skopmyndateiknari

Björn Heimir Önundarson gerir upp árið í sinni nýjustu teikningu sem tók aðeins einn og hálfan dag í vinnslu.
Björn Heimir Önundarson gerir upp árið í sinni nýjustu teikningu sem tók aðeins einn og hálfan dag í vinnslu.

Björn Heimir Önundarson er 12 ára skopmyndateiknari frá Hvolsvelli. Í sinni nýjustu teikningu gerir hann upp árið 2008 þar sem íslenskir stjórnmálamenn, útrásarvíkingar og íþróttamenn eru í aðalhlutverki.

Í teikningunni koma einnig við sögu þeir Barack Obama og Gordon „Crazy“ Brown eins og Ólafur kallar hann. Hefur hann greinilega litlar mætur á forsætisráðherranum vegna Icesave-málsins. Davíð Oddsson seðlabankastjóri fær líka sitt pláss, sem og jarðskjálftinn skæði á Suðurlandi.

Björn Heimir heillaðist fyrst af skopmyndum hjá Sigmund sem starfaði hjá Morgunblaðinu um árabil. „Síðan þegar ég byrjaði að pæla í litunum meira byrjaði ég að skoða hjá Halldóri,“ segir Björn og á þar við Halldór Baldursson sem starfaði hjá 24 Stundum áður en hann fór yfir á Moggann.

Björn er tiltölulega nýbyrjaður að gera skopmyndir og finnst það mjög gaman. Eins og gefur að skilja þarf hann að fylgjast náið með þjóðfélagsumræðunni til að hafa puttann á púlsinum og er hann því duglegur við að lesa blöðin og horfa á fréttirnar í sjónvarpinu. Hann segir að atburðir undanfarinna mánuða hafi veitt honum mikinn innblástur við ársuppgjörið, sem tók aðeins einn og hálfan dag í vinnslu.

„Það er mjög mikið að teikna um í kreppunni,“ segir Björn, sem fannst þó árangur handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum standa upp úr á árinu. Enda fá þeir Ólafur Stefánsson og markvörðurinn Björgvin Páll Gústafsson báðir veglegan sess í teikningunni. „Það er ekki erfitt að teikna Óla en það er erfiðara að teikna Björgvin. Hann er ekki með jafnsterkan svip og Ólafur,“ segir hinn ungi og efnilegi teiknari sem á greinilega framtíðina fyrir sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.