Innlent

Birna vill forystusæti hjá Sjálfstæðisflokknum

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1. - 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir þingkosningarnar í vor. Hún segir Sjálfstæðisflokkinn líkt og aðra flokka verða að axla ábyrgð á núverandi stöðu efnhagsmála þjóðarinnar.

,,Nú eru viðsjárverðir tímar og staða þjóðarbúsins er afleit. Þeir sem eldri eru þekkja þrengingar af þessu tagi en kynslóðin mín á margt ólært. Þjóðin deilir um orsakir hrunsins en ljóst er að margir bera þunga ábyrgð. Þar þurfa stjórnmálaöfl að axla sinn hlut og gangast við þeim mistökum sem gerð hafa verið á liðnum árum. Flokkurinn minn er þar engin undantekning," segir Birna í tilkynningu.

Birna segir að þótt margt hefði betur mátt fara hafi hugsjón sjálfstæðismanna um frelsi einstaklingsins til athafna verið grunnurinn að framgangi Íslands og bættum kjörum þjóðarinnar. ,,Við erum vel menntuð og frjálslynd þjóð og grunnstoðir okkar eru sterkar. Við eigum að læra af reynslunni, jafnt því sem vel hefur gengið og því sem miður hefur farið," segir Birna og bætir við að endurreisnarstarfið sé risavaxið en hún vilji taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan.

,,Ég er 43 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík en hef verið búsett á Ísafirði með hléum í 17 ár. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og BA prófi í fjölmiðlafræði frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum. Starfaði um nokkurra ára skeið sem fréttamaður Ríkisútvarpsins á Ísafirði og fréttaritari Rúv í Noregi. Hef setið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frá 1998 og lengst af þeim tíma gegnt embætti forseta bæjarstjórnar. Er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi og skipa í dag 5. sæti listans. Hef sinnt fjölmörgum nefndastörfum í gegnum tíðina, bæði í héraði og á landsvísu, og er t.a.m. formaður skólanefndar Menntaskólans á Ísafirði og varaformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Samhliða stjórnmálum hef ég starfað við ýmsa blaða- og lausamennsku. Maðurinn minn er Hallgrímur Kjartansson, læknir, og við eigum fjögur börn," segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×