Innlent

Atvinnulaus vann 19 milljónir í lottóinu um helgina

Allir þrír vinningshafarnir í lottóútdrættinum á laugardaginn eru búnir að hafa samband við Íslenska getspá. Tveir þeirra keyptu miðana sína á lotto.is og einn keypti miðann í N1 við Háholt í Mosfellsbæ.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá. Þar segir einnig að annar þeirra sem keypti miðann á netinu hafi veirð með sex talna kerfisseðil og notaði afmælisdaga fjölskyldunnar sem reyndust aldeilis lukkutölur um helgina.

„Þetta er 6 manna fjölskylda í Reykjavík. Heimilisfaðirinn kaupir stundum Lottó og notar alltaf afmælisdagana en var ekki heima þegar útdrátturinn fór fram og það var því mikil spenna hjá fjölskyldunni að vita hvort hann hefði munað eftir því í þetta sinn þegar þau sáu tölurnar sínar birtast á skjánum - sem betur fer hafði hann ekki klikkað á því. Núna ætlar hann að setja tölurnar sínar í áskrift," segir í tilkynningunni.

„Hinn vinningshafinn sem verslaði á lotto.is hefur verið atvinnulaus síðan í september. Hann var einnig með kerfisseðil og notaði afmælisdaga fjölskyldunnar til að lotta - með þessum líka fína árangri.

Vinningshafinn sem keypti miðann sinn í N1 í Mosfellsbænum kaupir miða þegar hann man eftir því en á laugardaginn var hann svo ákveðinn í að kaupa að hann skrifaði það á tossamiðann til að muna nú örugglega eftir því. Hann kom við á N1 til að kaupa bensín og gleymdi ekki að kaupa Lottó í leiðinni - sem betur fer.

Íslensk getspá óskar vinningshöfunum innilega til hamingju með glæsilega vinninga en hver um sig fékk tæpar 19 milljónir króna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×